miðvikudagur, október 05, 2005

Bananakarrýkjöt

Nafnið á þessari hljómar ekkert sérlega vel en þetta bragðast ótrúlega vel. Ég lofa. Ég hef ekki eldað þetta sjálf ennþá en fékk þetta í matarboði og varð að setja þetta hér inn. Enda skemmtilega öðruvísi réttur.

4 kjúllabringur (eða 2 svínalundir...)
3 bananar
500 ml matreiðslurjómi
karrý
salvia= sage
salt
pipar

Skerðu kjötið í 3 cm sneiðar (...) og steiktu það upp úr smjöri í 2-3 mín á hvorri hlið. Settu það svo í eldfast mót með frekar háum köntum. Settu hálfan bolla af vatni á pönnuna til þess að leysa upp góða bragðið, láttu sjóða niður þar til 1-2 msk eru eftir og helltu því yfir kjötið. Helmingaðu bananana og kljúfðu eftir endilöngu. Settu nú smjör á pönnuna (óþarfi að þrífa á milli...), smelltu bönunununununum þar á og brúnaðu þá. Þeim er síðan raðað ofan á kjötið í eldfasta mótinu, allt saman kryddað með svörtum pipar, 1 tsk af salti og 2 tsk af salviu. 1 msk af karrýi er blandað útí matreiðslurjómann og blöndunni hellt yfir kjötið og bananana í eldfasta mótinu. Þetta er svo sett í 180°c heitan ofn og bakað í 25-30 mín. Rétturinn er borinn fram með hrísgrjónum, mangó chutney, kókosmjöli, salthnetum og rúsínum (þetta extra meðlæti er borið fram í sér skálum hvert fyrir sig og mér finnst það algjörlega ómissandi). Bon apetit.

Kjúklingasalat

2 kjúllabringur skornar í mátulega munnbita og hjúpaðar í eftirfarandi kryddlegi:

c.a. 1 dl mangó chutney
2 tsk mild madras karrý
smá chilli krydd eða ferskt chilli ef vill
smá olía
smá vatn

Innihaldsefnunum er hrært saman og olían og vatnið notað til að þynna löginn. Eftir að kjúklingnum hefur verið blandað saman við er þetta látið standa smá í ísskáp. Þetta er síðan steikt á pönnu.
Á meðan kjúllinn er í ísskápnum er gott að gera salatið. Mér er svosem sama hvað þið notið í ykkar salat en mér finnst best að nota rucola salat, nóg af tómötum, gúrku, papriku, fetaost (í vatni), ristuð sólblómafræ og síðast en alls ekki síst ristaðar cashaw hnetur. Nammi namm. Svo er auðvitað snilld að bæta við melónubitum eða jarðarberjum.
Svo er steikta kjúllanum bara bætt ofan á salatið og herlegheitin borðuð með bestu lyst.

þriðjudagur, október 04, 2005

Fiskur með sojagrænmeti

hvítur fiskur (gjarnan ýsa, magn fer eftir því hve margir eru í mat)
herbamere krydd (eða annað salt)
svartur pipar
smá hveiti

allskonar grænmeti, s.s. brokkólí, laukur, gulrætur, paprika og sveppir
hvítlaukur
soja sósa
matreiðslurjómi

Fiskurinn er skolaður, hreinsaður og skorinn í mátulegar sneiðar (eftir smekk). Hveitinu og kryddinu blandað saman og fiskisneiðunum velt upp úr blöndunni. Þær eru síðan steiktar á pönnu upp úr olíu (má steikja smá til að loka og baka svo í ofni ef vill).
Grænmetið er skorið í mátulega bita og það steikt upp úr olíu í potti. Hvítlaukur marður yfir eftir smekk (c.a. 1-4 rif). Svo er alveg góðum slatta af sojasósu hellt yfir (hmm, hef aldrei mælt það) og síðan matreiðslurjóma í hæfilegu magni þannig að þetta verði nothæft sem e-s konar sósa með fiskinum (ekki samt löðrandi sósa, meira svona blautt grænmeti - grænmetið er samt ekki mauksoðið!!). Þetta á að verða svona ljósbrúnt á litinn og ótrúlega gott á bragðið.
Svo er fiskurinn bara settur á disk og grænmetið/sósan höfð með ásamt kartöflum eða hrísgrjónum.
Úff, vissi ekki að það væri svona erfitt að koma uppskrift frá sér. Vonandi skilst þetta og ykkur tekst að malla þetta. Ég mæli sterklega með þessu svona öðru hvoru til að breyta til. Grænmetið/sósan er líka snilld með grilluðu kjöti og bakaðri kartöflu!

Nammi namm.....

Hér koma hinar ýmsustu uppskriftir sem hafa kitlað bragðlauka mína og nærstaddra í gegnum tíðina. Uppskriftirnar koma úr ýmsum áttum og eru sjaldan hugarsmíð mín frá grunni en oftar en ekki hef ég breytt þeim og bætt þær eftir mínum smekk. Verði ykkur að góðu ;o)